Samþykkt hefur verið að selja alþjóðaflugvöllinn í Sydney á 17,5 milljarða Bandaríkjadala til hóps af fjárfestum. Ef kaupin ganga í gegn verður um að ræða ein stærstu viðskipti í sögu Bandaríkjanna. BBC greinir frá.

Samningar náðust milli aðila er fjárfestahópurinn Sydney Aviation Alliance hækkaði yfirtökutilboð sitt til núverandi eiganda flugvallarins. Þrátt fyrir að samningar um kaupverð hafi náðst þarf enn að binda marga lausa enda og því gæti tekið nokkra mánuði fyrir kaupin að ganga endanlega í gegn.

Tilkynning um kaupsamning á þessum stærsta flugvelli Ástralíu kemur skömmu eftir að landið opnaði landamæri sín fyrir fullbólusettum ferðamönnum. Frá því í byrjun mánaðar hafa fullbólusettir erlendir ferðalangar verið velkomnir inn í tvö stærstu fylki Ástralíu án þess að þurfa að sæta sóttkví. Er þetta í fyrsta sinn í ríflega eitt og hálft ár sem erlendir ferðamenn þurfa ekki að fara í sóttkví við komu til landsins. Þá geta Ástralskir ríkisborgarar einnig nú ferðast erlendis án þess að þurfa að sæta langri sóttkví við heimkomu.