Sigríður Dúna Kristmundsdóttir er í ítarlegu viðtali við 80 ára afmælisblað Frjálsrar verslunar sem kom út í síðasta mánuði. Í viðtalinu fer hún um víðan völl og segir m.a. að staða kvenna í viðskiptalífinu á þeim árum sem hún sat á þingi hafi komið skýrt fram er hún sótti aðalfund Seðlabanka Íslands eitt árið.

„Mér er mjög minnisstætt þegar ég fór á aðalfund Seðlabanka Íslands veturinn 1984, því ég gat ekki betur séð en að ég væri eina konan á fundinum. Allir þingflokkarnir sendu fulltrúa og ég fór sem fulltrúi Kvennalistans, sem auðvitað sendi ekki karl á fundinn eins og hinir þingflokkarnir gerðu. Það var fullur Súlnasalur af jakkafötum á Hótel Sögu og ég man ekki eftir að hafa séð eina einustu konu. Þetta lýsir vel stöðu kvenna í viðskiptalífinu á þessum tíma. Þrátt fyrir það hafa konur verið viðloðandi verslun og viðskipti frá því fyrir aldamótin 1900. Bæði voru hér kaupkonur sem fluttu inn vörur og ráku verslanir og svo skiptu afgreiðslukonur mörgum tugum. Að starfa við verslun var mjög mikilvæg atvinna fyrir konur. Mér finnst að það þurfi að skoða betur konur og verslun og athuga hver áhrif kvenna hafa verið á þróun verslunar á Íslandi í gegnum tíðina. Þetta er óplægður akur. Til marks um þetta má nefna að Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) var ekki stofnað fyrr en 1999, en ekkert slíkt félag hafði áður verið til."

Nánar er rætt við Sigríði Dúnu í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar sem kom nýlega út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .