„Okkur verður aldrei hleypt inn í ESB með þennan vanda óleystan, hvað þá ERM II,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann flutti erindi með fleirum um skuldastöðu þjóðarbúsins og afnám gjaldeyrishafta í hádeginu í dag á vegum Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Illugi sagði einkennilegt að enn liggi ekki fyrir hvernig eigi að aflétta höftum, leysa skuldavanda þjóðarinnar og lagði áherslu á að sér fyndist of langur tími hafa liðið frá því málið var fyrst rætt. Hann lagði áherslu á að efnahagsstefna stórnvalda styðji við þær ákvarðanir sem þurfi að taka.

Hann sagði nokkra valkosti í boði til að grynnka á erlendum skuldum þjóðarbúsins og draga úr áhættunni fyrir fjármálastöðugleikann sem nauðasamningar slitastjórna við erlenda kröfuhafa geti haft. Þar á meðal er að gera þrotabú föllnu bankanna upp í krónum.

Einn valkostinn sagði hann þann að gera þrotabú föllnu bankanna upp í krónum, s.s. á genginu 250 til 260 fyrir hverja evru. Það hljóti erlendir kröfuhafar að geta sætt sig við.

„Þetta eru íslenskar kennitölur. Ef farin er þrotaleið þá hlýtur það að vera gert eftir íslenskum lögum. Þessir aðilar hafa fengið mjög góða ávöxtun hérá Íslandi. Stór hluti af þessu er í eigu vogunarsjóða sem komu ekki inn á sama gengi og þeir sem voru hér fyrir. Þeir kunna þennan leik betur en við. Þeir hafa leikið þetta eftir um allan heim. Þeir komu hingað fljúgandi á einkaþotum og munu fljúga héðan burt á einkaþotum. Spurningin er bara hvort það verður kampavínsveisla á leiðinni heim eða ekki,“ sagði hann.