„Það væri eina vitið að taka FL Group af markaði,” sagði einn stjórnarmanna í FL Group sem Viðskiptablaðið ræddi við fyrr í dag, en enginn þeirra vildi tjá sig um sannleiksgildi orðróms þess efnis að til standi að taka félagið af markaði á næstu vikum.

Gengi hlutabréfa hefur lækkað um 10,4% það sem af er degi og er markaðsvirði félagsins nú um 101 milljarður króna. „Verðið á félaginu er mjög hagstætt núna,” sagði annar sem við var rætt. Tíu stærstu hluthafar FL Group eiga samtals um 85% af hlutafénu.

„Þetta hefur komið til tals og kannski væru flestir hluthafarnir til í þetta,” sagði einn viðmælenda blaðsins. Aðspurður um hvort að hann telji það fjárhagslega mögulegt í ljósi lausafjárþurrðar á markaði að fjármagna slíka afskráningu segir hann að vel geti verið að flestir hluthafar séu tilbúnir til að standa að henni. „Það væri hugsanlega hægt að strúktúra þetta með einhverjum hætti og kannski geta bankarnir tekið einhvern þátt,” sagði hann.

„Ástandið á Íslandi er gríðarlega alvarlegt og eitthvað þarf að gera,” sagði þriðju stjórnarmaðurinn sem við var rætt en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Tíu stærstu með um 85%

Nýjustu upplýsingar um eignarhald FL Group, frá 18. febrúar sl., sýna að Baugur á samtals 36,47% af félaginu, í gegnum nokkur félög og að hluta til fyrir tilstilli framvirkra samninga.

Annar stærsti hluthafinn er Fons, félag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinsson, með12,21% og að hluta til fyrir tilstilli framvirkra samninga.

Þriðji stærsti hluthafinn er Oddaflug, félag Hannesar Smárasonar, með 10,86%.

Fjórði stærsti hluthafinn er Materia Invest, félag Þorsteins M. Jónssonar og Magnúsar Ármanns, með 6,28%.

Fimmti stærsti hluthafinn er GLB Hedge, með 4,26%.

Sjötti stærsti hluthafinn er Sund ehf., félag Gunnþórunnar Jónsdóttur, Gabríelu Kristjánsdóttur og Jóns Kristjánssonar, með 3,24% hlut.

Sjöundi stærsti hluthafinn er Stím ehf. með 3,16% hlut.

Áttundi stærsti hluthafinn er Glitnir banki með 2,42%.

Níundi stærsti hluthafinn er Gnúpur fjárfestingarfélag, með 2,31%.

Tíundi stærsti hluthafinn er Smáey, félag Magnúsar Kristinssonar, með 2,0%