*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 13. september 2021 10:24

Einangraðir kunni að eiga kröfu á ríkið

Að mati tveggja lögmanna má færa sterk rök fyrir því að einkennalitlir í einangrun geti eignast kröfu á ríkissjóð.

Jóhann Óli Eiðsson
Fjöldi hefur þurft að fara í sóttkví eða eingangrun eftir að hafa komist í návígi við veiruna.

Sterk rök hníga til þess að frískur einstaklingur, sem skikkaður er í einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19, kunni að eiga kröfu á ríkissjóð vegna tapaðra launatekna eða skerðingar á veikindarétti. Hið sama kann að gilda um atvinnurekanda viðkomandi.

Þetta segir í grein sem Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður og meðeigandi hjá Logos, og Jóna Vestfjörð Hannesdóttir, lögfræðingur og fulltrúi á sömu stofu, rituðu. Greinin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Öllum er kunnugt hve mikil áhrif farsóttin hefur haft á daglegt líf en stór hluti þjóðarinnar hefur á einhverjum tímapunkti ýmist verið skikkaður í sóttkví eða einangrun. Á síðasta ári samþykkti Alþingi heimild handa atvinnurekendum til að gera kröfu á ríkið vegna launa starfsmanna sem lenda í sóttkví. Hið sama gilti aftur á móti ekki um þau sem þurftu í einangrun vegna smits.

Í grein Halldórs og Jónu er bent á að þeir starfsmenn þurfi því að nýta veikindadaga sem þeir eiga inni en samkvæmt lögum og kjarasamningum verður starfsmaður að vera óvinnufær, vegna sjúkdóms eða slyss, til að geta nýtt þann rétt.

„Ástand starfsmannsins, andlegt eða líkamlegt, er þá þannig að það hindrar hann í því að inna starf sitt af hendi. Það er með öðrum orðum ekki nóg að staðfesta tilvist einhvers sjúkdóms, heldur þarf starfsmaður að sýna fram á að hann sé með öllu óvinnufær vegna sjúkdómsins,“ segir í greininni.

Bólusetningar breytt sóttinni

Í fyrri bylgjum farsóttarinnar lá ljóst fyrir að stór hluti sem greindist með smit veiktist heiftarlega. Bólusetningar hafa hins vegar, sem betur fer, leitt til þess að aukinn fjöldi smitaðra sýnir engin einkenni og fá veikjast alvarlega. Benda Halldór og Jóna á að „einkennalítill eða einkennalaus einstaklingur með staðfest smit [njóti] ekki sömu réttinda og einstaklingur í sóttkví.“

„Einstaklingur í einangrun þarf að sæta því að áunnin veikindaréttindi séu nýtt á meðan á einangrunartíma stendur, þrátt fyrir að vera að fullu vinnufær. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að komi til alvarlegra veikinda síðar hjá sama einstaklingi mun hann búa við skertan veikindarétti og mögulegt tekjutap,“ segir í greininni.

Telja höfundar að setja verði stórt spurningamerki við að vinnufærum einstaklingi sé gert að ganga á áunninn veikindarétt vegna valdboðs yfirvalda. Því megi færa sterk rök fyrir því að þeir aðilar kunni að eiga kröfu á ríkissjóð vegna þessa.

„Að sama skapi kann atvinnurekandi sem vill taka við vinnuframlagi starfsmanns við slíkar aðstæður, en getur það ekki vegna fyrirmæla yfirvalda, jafnframt að eiga slíka kröfu,“ segir í niðurlagi greinarinnar.