Einangrun Héðinsfjarðar á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefur nú verið rofin.

Í gær sprengdi Kristján Möller samgönguráðherra málamyndasprengingu í Siglufjarðarlegg Héðinsfjarðaganga í tilefni þess að verktakarnir Háfell og Metrostav slógu í gegn um síðasta haftið sem opnaði göngin út í Héðinsfjörð fyrir páska. Sá hluti ganganna er 3,7 kílómetrar.

Þar með er Héðinsfjörður kominn í vegasamband við umheiminn í fyrsta skipti í sögunni, en ekki hefur verið hægt að komast í fjörðinn fram að þessu nema frá sjó.

Ólafsfjarðarleggur Héðinsfjarðarganga er tæpir 7 kílómetrar. Þar er búið að sprengja 2,7 kílómetra, en fremur hægt hefur gengið að bora þar í vetur vegna vatnsleka. Bormenn þar munu þó fá liðsauka við það verk þegar borgengið úr Siglufjarðarleggnum hefur innan skamms borun úr Héðinsfirði í átt til Ólafsfjarðar. Gera má ráð fyrir að þeim borunum ljúki í haust.