Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hreyfist sífellt meira í takt við erlenda markaði, einkum þann evrópska. Fylgni verðbreytinga á þessum tveimur mörkuðum jókst mjög síðasta haust en minnkaði þegar líða tók að áramótum. Hún jókst aftur í janúar og hefur haldist há síðan.

Markaðurinn með hlutabréf hér á landi hefur að miklu leyti verið aftengdur erlendum mörkuðum undanfarin ár sökum fjármagnshaftanna. Talsverð umræða hefur verið um það upp að hvaða marki þetta hefur haft áhrif á verðlagningu á íslenska markaðnum.

Ljóst er að minna samræmi hefur verið milli verðlagningar félaga á íslenska markaðnum og sambærilegra félaga erlendis og sumir hafa jafnvel óttast að bóla gæti myndast hér á landi í skjóli haftanna. Fylgni verðbreytinga á íslenska markaðnum og öðrum mörkuðum varpar nokkru ljósi á stöðuna.

Sást vel í janúar

Á árinu 2014 og framan af árinu 2015 var lítið samband á milli daglegra verðbreytinga á íslenska markaðnum og þeim evrópska. Frá miðju ári 2014 þangað til um síðustu áramót hækkaði íslenska úrvalsvísitalan nánast stöðugt, en á sama tímabili hækkaði evrópska Euro Stoxx 50 vísitalan lítið þrátt fyrir talsverðar sveiflur. Eina áberandi hækkunartímabilið á evrópska hlutabréfamarkaðnum var í byrjun árs 2015 en á sama tíma hægði tímabundið á verðhækkunum í íslensku kauphöllinni.

Frá síðasta sumri, og sérstaklega frá því um síðustu áramót, hefur fylgni dagsbreytinga á íslensku vísitölunni og þeirri evrópsku hækkað og virðist nú vera talsvert meiri heldur en á árunum 2014-2015. Þetta sást greinilega í janúar þegar miklar sveiflur voru á markaðnum á Íslandi sem og víða annars staðar vegna óvissu í efnahagsmálum heimsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .