Í fyrra gegndi Harald Aspelund, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, stöðu varaforseta mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þá bar Ísland fram ályktun um að gagnrýna mannréttindabrot á Filippseyjum og var hún samþykkt. Harald segir þetta vera eitt dæmi um það hversu mikil áhrif smáþjóð eins og Ísland geti haft. „Smærri ríki hafa í sjálfu sér ákveðið hlutverk og þegar við erum komin með teymi til Genfar til að vinna að mannréttindamálum ber okkur skylda til að leggja eitthvað af mörkum. Við höfum séð að smærri þjóðir eins og Ísland geta klárlega haft mikil áhrif og haft sterka rödd. Það er í sjálfu sér enginn að telja mannfjöldann hjá þeim þjóðum sem þar eru með fulltrúa."

Hann bætir við að varðandi ályktunina um Filippseyjar hafi Sameinuðu þjóðirnar áður bent á að framganga stjórnvalda þar í landi og skortur þeirra á samstarfsvilja væri mikið áhyggjuefni. Þau kölluðu því eftir því að einhver ríki tækju málið upp og kæmu af stað samtali í mannréttindaráðinu. „Við svöruðum þessu ákalli og náðum samstöðu um þessa mikilvægu ályktun. Í henni var kveðið á um að gerð yrði skýrsla um mannréttindaástandið á Filippseyjum sem nú hefur litið dagsins ljós. Hún sýnir svart á hvítu að full þörf var á þessari málafylgju."

Harald segir jafnframt að aukinnar tilhneigingar gæti í heiminum til að sporna við hindranalausum milliríkjaviðskiptum. „Þessi aukna einangrunarhyggja er mikið áhyggjuefni því frjáls alþjóðaviðskipti eru sérlega mikilvæg fyrir þjóðir á borð við Ísland. Eins og gefur að skilja getum við ekki framleitt allar okkar neysluvörur sjálf og þurfum að treysta mikið á utanríkisviðskipti. Það er staðreynd að sum ríki brjóta þessa samninga og það hriktir því dálítið í stoðum alþjóðaviðskipta. Margir vilja þó stuðla að endurbótum í kerfinu og því er ég bjartsýnn."

Nánar er rætt við Harald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .