Einar Örn Ólafsson hefur tilkynnt stjórn Skeljungs að hann óski eftir að láta af störfum sem forstjóri félagsins. Stjórnin hefur samið við Einar að hann vinni áfram sem forstjóri þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn.

Einar var ráðinn forstjóri Skeljungs árið 2009 og stýrði því þegar hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson áttu það. Þau seldu hlut sinn til félagsins SF IV slfh, félagi í rekstri Stefnis, í desember. Einar á 3% hlut í Skeljungi.

Haft er eftir Einar í tilkynningu:

„Ég tel þetta vera heppilegan tímapunkt til að standa upp úr forstjórastól Skeljungs. Mitt verkefni var að treysta stoðir félagsins til langs tíma og leiða stefnumótunarvinnu þess.  Staða fyrirtækisins er sterk og stefnumótunarvinna á lokametrum.  Nú er tímabært að líta til annarra verkefna, sem hafa staðið mér nærri en ég hef ekki getað sinnt sem skyldi vegna anna. Það hefur verið lærdómsríkt að stjórna svona öflugu rekstrarfélagi með frábæru samstarfsfólki. Ég tek þá reynslu með mér á nýjan vettvang og óska stjórn og starfsfólki Skeljungs alls hins besta í framtíðinni.“