Einar Bárðarson hefur verið ráðinn verkefnisstjóri hjá Víkingaheimum vegna uppsetningar Smithsonian sýningar og Íslendings sem opnar næsta sumar í Reykjanesbæ.

Á sama tíma mun Einar einnig sinna verkefnum við uppbyggingu Hljómahallarinnar sem nú rís við hlið Stapans í Reykjanesbæ.

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

Þar kemur fram að Einar settist nýlega að í Reykjanesbæ en hann starfaði áður í London við útgáfu og umboðsstörf.

„Það er svo margt spennandi í gangi hér. Mér finnst Árni Sigfússon og samstarfsfólk hans í bæjarstjórn vera að gera skemmtilega hluti hérna. Ég mun vinna þetta verkefni mjög náið með Steinþóri Jónssyni, Elisabetu Ward sýningastjóra og Gunnari Marel Eggertssyni skipstjóra og hlakka ég mjög mikið til samstarfsins við allt þetta góða fólk.“ sagði Einar í samtali við Víkurfréttir.

Víkingaheimar opna í maí næstkomandi en fram kemur í frétt Víkurfrétta að sjö til átta stöðugildi munu verða til við opnunina. Víkingaheimar eru að mestu í eigu Reykjanesbæjar.

„Víkingaheimar og Hljómahöllin eru hvorutveggja mikil og metnaðarfull verkefni sem sanna með hvaða festu og framsýni hlutirnir eru keyrði hérna í Reykjanesbæ. Ég hef mikinn metnað fyrir báðum þessum verkefnum og vona að kostir mínir nýtist vel. Markmiðið er að byggja upp fjölsóttustu ferðamannastaði landsins og skapa þarna fjölda stöðugilda og gjaldeyri. Það er það sem er mest aðkallandi þessa daganna,“ sagði Einar Bárðarson í samtali við Víkurfréttir.