Einar Bárðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins en sjóðurinn var stofnaður og hóf starfsemi fyrir rúmlega ári síðan. Markmið hans er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda úr náttúru Íslands með endurheimt votlendis í samstarfi landeigenda, ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga.

Einar hefur á síðustu árum starfað sem stjórnandi í ferðaþjónustu og almannatengslum. Á árunum 2012 til 2015 gegndi hann starfi forstöðumanns Höfuðborgarstofu. Í framhaldi af því var hann rekstrarstjóri hjá Reykjavík Excursions og svo síðast í tímabundinni ráðningu sem samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar. Þess utan hefur hann unnið við fjölbreytt verkefni tengd almannatengslum og markaðsmálum. Einar er með meistaragráðu í viðskiptum og stjórnun frá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2012. Á síðustu árum hefur hann einnig látið til sín taka á sviði umhverfismála.

„Endurheimt votlendis er afar mikilvægur þáttur í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til að stöðva þá hamfarahlýnun sem að óbreyttu mun verða.,“ segir Eyþór Eðvarðsson stjórnarformaður sjóðsins. ,,Við berum miklar væntingar til Einars og hlökkum til samstarfs við hann í þessu áríðandi verkefni.”

„Ég er stoltur yfir því trausti sem stjórn sjóðsins sýnir mér með því að fela mér þetta verkefni. Það er magnað að fá vettvang og erindi til þess að leggjast á árar með vísinda- og baráttufólki um allan heim í bráttunni gegn hlýnun jarðar” sagði Einar við ráðninguna. ,,Næstu 18 mánuðir munu ráða úrslitum um hvort hægt verði að koma í veg fyrir að hitastig á jörðinni hækki um meira en 1,5 stig á þessari öld.”

Bakhjarlar Votlendissjóðs Íslands eru meðal annarra: Landgræðslan, Landbúnaðarháskólinn, Fuglavernd, Rannsóknarsetur HÍ á Suðurlandi og Náttúrufræðistofnun Íslands, PWC, Háskóli Íslands, Efla, Skeljungur, Samskip, Elding hvalaskoðun, Þekkingarmiðlun, Íslandsbanki, Reitir og Auðlind.

Verndari Votlendissjóðsins er: Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson