Kynnisferðir - Reykjavik Excursions hafa ráðið til sín tvo nýja stjórnendur. Þetta kemur fram í tilkynningu. Einar Bárðarson hefur verið ráðinn rekstrarstjóri Ferðaskrifstofu Kynnisferða og Ingvi Björn Bergmann fjármálastjóri félagsins. Þá mun Þórarinn Þór markaðsstjóri Kynnisferða stýra nýju markaðs- og viðskiptaþróunarsviði félagsins.

„Einar hefur verið forstöðumaður Höfuðborgarstofu frá árinu 2012 en hefur nú sagt starfi sínu lausu. Sem forstöðumaður Höfuðborgarstofu bar hann ábyrgð á aðkomu borgarinnar að ferðaþjónustu, m.a. rekstri upplýsingamiðstöðvar í Aðalstræti og markaðssetningu Reykjavíkur sem áfangastaðar. Höfuðborgarstofa ber jafnframt ábyrgð á stórviðburðum á vegum Reykjavíkurborgar líkt og Menningarnótt. Til margra ára starfaði Einar í afþreyingargeiranum, m.a. sem framkvæmdastjóri Concert og útvarpstöðvarinnar K100. Einar er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann mun hefja störf í lok sumars hjá Kynnisferðum.

Ingvi Björn Bergmann verður fjármálastjóri Kynnisferða. Ingvi starfaði áður á endurskoðunarsviði Deloitte eða allt frá árinu 2004, þar sem hann var einnig meðeigandi. Ingvi starfaði jafnframt um tveggja ára skeið hjá Deloitte í Kaupmannahöfn. Hann útskrifaðist með Cand. Oecon gráðu frá Háskóla Íslands árið 2006 og fékk löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2009. Ingvi Björn hefur auk þess verið stundakennari við Háskóla Íslands í reikningsskilum. Ingvi Björn mun hefja störf hjá Kynnisferðum í ágústmánuði.

Þórarinn Þór hefur gegnt stöðu sölu- og markaðsstjóra Kynnisferða frá árinu 2007. Hann tekur nú við stjórn nýs sviðs markaðs- og viðskiptaþróunar sem mun vinna þvert á allar rekstrareiningar með áherslu á markaðsmál, ný viðskiptatækifæri, greiningar og verkefnastjórnun. Þórarinn hefur unnið í ferðaþjónustu um árabil eða frá árinu 2000. Þórarinn Þór er með BS gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.