Einar Bárðarson hefur verið valinn úr hópi 27 umsækjenda til að taka við stöðu forstöðumanns Höfuðborgarstofu. Hann tekur við af Sif Gunnarsdóttur, sem gegnt stöðunni síðastliðin fimm ár. Hún er að taka við stöðu forstöðumanns Norðurlandahússins í Færeyjum í upphafi næsta árs þegar gert er ráð fyrir að nýr forstöðumaður taki til starfa.

Staðan hjá Höfuðborgarstofu var auglýst í lok september síðastliðnum. Að ráðningarferli og vali stóð ráðningarnefnd sem í sátu Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, Ellý K. Guðmundsdóttir, borgarritari og Þórólfur Árnason, verkfræðingur og ráðgjafi. Ráðningafyrirtækið STRÁ ehf. annaðist flokkun umsókna og aðstoð við mat og ráðgjöf.

Fram kemur í tilkynningu að samhljóða mat ráðningarnefndarinnar sé að Einar Bárðarson uppfylli best umsækjenda skilyrðin, sem sett voru fram í auglýsingu um starfið. Þar var m.a. krafist háskólamenntunar sem nýtist í starfi, að lágmarki þriggja ára stjórnunarreynslu, leiðtogahæfni, hugmyndaauðgi  og þekkingar og reynslu á sviði ferða- og kynningarmála og viðburðastjórnunar.

Einar er 40 ára gamall og hefur umtalsverða og fjölbreytta reynslu af stjórnun, rekstri og verkefnastjórnun, ekki hvað síst á vettvangi viðburða- og markaðsmála. Einar er vel þekktur fyrir frumkvöðlastarf sitt á sviði tónlistar og tónleikahalds auk þess að hafa um árabil sinnt fjölbreyttum kynningar- og markaðsverkefnum innan lands sem utan.  Einar lagði stund á nám í markaðsfræðum við Háskólann í Arizona og útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík sl. vor þar sem hann menntaði sig m.a. í rekstrar- og mannauðsstjórnun, stjórnun og stefnumótun.