Einar Sveinsson, stjórnarformaður Íslandsbanka, gagnrýndi Íbúðalánasjóð harðlega í ræðu sinni á aðalfundi Íslandsbanka sem nú stendur yfir. "Það sætir furðu að ríkisstofnunin Íbúðalánasjóður skuli bregðast við með þeim hætti sem raun ber vitni. Sá sjóður starfar eftir sérlögum, nýtur ríkisábyrgðar án þess að greiða fyrir það, og er í samkeppni við einkaaðila á ójöfnum forsendum. Það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær síðustu afskiptum ríkisvaldsins af fjármálamarkaðnum lýkur og ótrúlegt að stjórnvöld hafi enn ekki áttað sig að fullu á þeim ávinningi sem frelsisvæðing fjármálakerfisins hefur skilað samfélaginu," sagði Einar í ræðu sinni.

Hann bætti við að það væri mikilvægt að húsnæðislánamarkaðurinn hér á landi nái sama þroska og í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Einar sagði að innanlands hefði Íslandsbanki gefið tóninn í ársbyrjun 2004 með því að bjóða, fyrstur banka, samkeppnishæf húsnæðislán við Íbúðalánasjóð. Síðan tók bankinn þátt í þeirri hörðu samkeppni sem myndaðist þegar aðrir bankar komu inn á þann markað. "Er nú svo komið að bankarnir hafa náð sterkri stöðu á húsnæðislánamarkaðnum, sem styrkir til muna útlánagrunn þeirra. Aukið frjálsræði og harðnandi samkeppni á markaðnum er enn fremur til hagsbóta fyrir almenning, sem nýtur hagstæðari lána og fleiri valmöguleika. Sem dæmi má nefna að almenningi gefst nú kostur á að endurfjármagna eldri og óhagstæðari lán, en það var ekki mögulegt á meðan Íbúðalánasjóður drottnaði yfir húsnæðislánamarkaðnum," sagði Einar.