Einar Geir Jónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Unimaze og tekur hann við starfinu af Markúsi Guðmundssyni, sem er stofnandi fyrirtækisins frá 2006, en Markús mun áfram leiða hugbúnaðarþróunina sem tæknistjóri Unimaze. Einar Geir starfaði fyrir sem sölu- og markaðsstjóri hjá fyrirtækinu.

„Unimaze hefur vaxið það hratt á stuttum tíma að erfitt er orðið að sinna bæði daglegum rekstri og tæknilegri innleiðingu á sama tíma“, er haft eftir Markúsi í fréttatilkynningu. „Metnaður minn hefur ávallt legið í að skapa nýjar vörur og þróa verðmæti fyrir viðskiptavini Unimaze og nú mun ég geta enn betur einbeitt mér að því“.

Unimaze er íslenskt sprotafyrirtæki sem hefur frá árinu 2006 byggt upp alþjóðlegar lausnir til að aðstoða bókhaldskerfi og notendur þeirra við að senda og móttaka stöðluð viðskiptaskjöl, s.s. rafræna reikninga á milli kerfa. Lausnir þess styðja öll viðskiptakerfi sem í boði eru á Íslandi og aðstoða daglega yfir 3.000 fyrirtæki við að senda og móttaka reikninga, pantanir og önnur viðskiptaskjöl. Origo keypti 60% hlut í Unimaze árið 2018.

„Ég er afar stoltur og þakklátur fyrir að njóta trausts Markúsar og stjórnar til að taka að mér þetta nýja hlutverk. Ég hef fylgt fyrirtækinu núna í um áratug, lengi vel í stjórn en síðustu 12 mánuði sem starfsmaður og sé gríðarleg tækfæri framundan með þær lausnir sem við erum með á markaðnum í dag og ekki síst þær lausnir sem eru nú í farvatninu, framtíðin er björt hjá Unimaze og það verður svo sannarlega gaman að taka þátt vegferð félagsins áfram,“ segir Einar Geir.

Sjá einnig: Evrópa áratugi á eftir Íslandi

Ingimar Bjarnason, stjórnarformaður Unimaze, segir að fyrirtækið hafi á síðustu misserum sannað getu sína til að sinna öflugri vöruþróun og veita afburða þjónustu. „Fyrirtækið hefur vaxið hratt og mikilvægt að undirbúa það fyrir áframhaldandi kröftugan vöxt með öflugri markaðssetningu, en ekki síður með því að skapa nýjungar sem skila viðskiptavinum ávinningi. Ég er afar ánægður með að Einar og Markús séu að leiðtogarnir í þessari vegferð,” er haft eftir Ingimar.