*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Fólk 14. janúar 2020 14:31

Einar Geir til Unimaze

Stýrði áður viðskiptaþróun hjá Póstinum en tekur nú yfir sölu- og markaðsstjórn Unimaze.

Ritstjórn

Einar Geir Jónsson hefur verið ráðinn sem sölu- og markaðsstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Unimaze. Einar þekkir fyrirtækið ágætlega en hann hefur setið í stjórn þess í ríflega átta ár, framan af sem meðstjórnandi en síðustu ár sem stjórnarformaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Unimaze.

„Ég er mjög spenntur að taka við þessu nýja og krefjandi verkefni og hlakka mikið til að takast á við fjölbreyttar áskoranir sem bíða. Rafrænir reikningar eru framtíðin eins og allir vita og ríkið hefur nú gefið út að rafrænir reikningar séu skylda frá og með síðustu áramótum. Unimaze er ungt, sprækt og mjög flott fyrirtæki sem starfar bæði hérlendis og erlendis sem gerir þetta allt saman enn áhugaverðara,“ er haft eftir Einari í tilkynningunni.

Áður en Einar kom til Unimaze hafði hann starfað sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandspósti frá árinu 2008. Þar áður var hann viðskiptastjóri hjá Vodafone. Hinn nýi sölu- og markaðsstjóri lauk BS námi í viðskiptafræði við HÍ en seinna meir MS gráðu í stjórnun í Pompeu Fabra háskólanum í Barcelona.

„Við erum ákaflega ánægð með að fá Einar Geir til liðs við okkur, þekkjum vel hans styrkleika og hvað hann kemur með að borðinu. Fyrirtækið stendur á ákveðnum tímamótum í dag og viljum við með þessu leggja aukna áherslu á sölu- og markaðsmál enda jarðvegurinn frjór um þessar mundir. Fyrirtækið hyggur einnig á landvinninga erlendis og það verður ekki síst verkefni Einars Geirs að huga að útflutningi hugbúnaðar sem reynst hefur íslenskum fyrirtækjum frábærlega undanfarin ár og skapað þeim mikið hagræði í sínum rekstri,“ segir framkvæmdastjórinn Markús Guðmundsson.

Unimaze er sem fyrr segir hugbúnaðarfyrirtæki en það vinnur að lausnum sem gera fyrirtækjum kleift að senda rafræna reikninga með einföldum, öruggum og rekjanlegum hætti úr bókhaldi í bókhald. Í tilkynningunni er þess getið að fyrirtækið sé að leggja lokahönd á samþykktarkerfi sem gagnast gæti fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum.