Einar Ingimundarson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, sagði starfi sínu lausu í vikunni. Hann ætlar að vinna áfram hjá fyrirtækinu þar til gengið hefur verið frá kaupum MP banka á fyrirtækinu. MP banki keypti Íslensk verðbréf um miðjan maí. Einar hefur unnið hjá Íslenskum verðbréfum síðan í maí árið 2008.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum að Einar hafi átt frumkvæðið að því að segja upp.

Haft er eftir honum:

„Ég hef í nokkurn tíma haft hug á að skipta um starfsvettvang og á sjálfur frumkvæðið að þessari ákvörðun. Hluthafar félagsins hafa nýlega samþykkt kauptilboð MP banka í félagið og væntanlega fylgja því einhverjar breytingar. Þó ég óttist ekki breytingar og lítist mjög vel á nýjan eiganda tel ég að nú sé ágætis tímapunktur til að skipta um vettvang. Ég mun þó að sjálfsögðu vinna af fullum heilindum með félaginu, núverandi hluthöfum og MP banka að því að klára þau viðskipti.”

Ekki er endanlega ljóst hvenær kaupin ganga í gegn en kostgæfniathugun stendur nú yfir.