Stjórn Spkef sparisjóðs hefur ráðið Einar Hannesson sem sparisjóðsstjóra. Einar er með B.Sc. gráðu í iðnaðartæknifræði frá Tækniháskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál og rekstrarstjórnun.

Frá þessu er greint á vef sparisjóðsins.

Þar kemur fram að undanfarin ár hefur Einar gegnt starfi forstöðumanns flugafgreiðslusviðs hjá Icelandair Ground Services (IGS) á Keflavíkurflugvelli, dótturfélagi Icelandair Group.

Úr fyrri störfum hefur Einar einnig víðtæka reynslu af markaðs- og sölumálum, verkefnastjórnun sem og vöru-, og viðskiptaþróun. Einar hefur á undanförnum árum sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og setið í stjórnum ýmissa félagasamtaka.

Einar er kvæntur Magndísi Andrésdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau þrjú börn. Fjölskyldan hefur búið í Reykjanesbæ síðastliðin sex ár.

Einar mun taka við starfi sparisjóðsstjóra 1. desember næstkomandi.