Einar Ingimundarson
Einar Ingimundarson
Sævar Helgason hefur ákveðið að láta af starfi framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa eftir 13 ára starf og hefur Einar Ingimundarson, forstöðumaður lögfræðisviðs Íslenskra verðbréfa, verið ráðinn í hans stað. Gengið var frá framkvæmdastjóraskiptunum á fundi stjórnar Íslenskra verðbréfa fyrr í dag og tekur Einar við starfinu frá sama tíma.

Þakklátur fyrir tækifærið

Einar kveðst hlakka til að taka við starfinu og segist þakklátur fyrir það traust sem honum hafi verið sýnt. „Starfið leggst mjög vel í mig og ég er þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri. Því fylgir vitanlega mikil ábyrgð og undir henni ætla ég mér að standa gagnvart hluthöfum, viðskiptavinum, starfsmönnum og samfélaginu í heild. Ég hef starfað hjá Íslenskum verðbréfum í rúm þrjú ár og veit að hér er góður og samhentur hópur starfsmanna sem hefur hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi," segir Einar.

Snýr sér að öðru

“Þetta er sameiginleg ákvörðun mín og fjölskyldu minnar og ég tilkynnti stjórn félagsins hana á mánudeginum í liðinni viku. Ég var ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa árið 1999 og hef því gegnt starfinu í 13 ár. Á þessum tíma, sem hefur verið gríðarlega skemmtilegur en jafnframt mjög krefjandi, hef ég öðlast mikla reynslu, enda hafa verulegar breytingar átt sér stað á fjármálamarkaði frá árinu 1999.Nú finnst mér tímabært að láta gott heita og ætla að snúa mér að öðrum verkefnum. Fyrirtækið stendur vel og hefur skilað hagnaði samfellt frá árinu 2002. Eignir sem félagið stýrir fyrir hönd viðskiptavina nema nú 120 milljörðum króna. Ég tel mig því skila góðu búi og kveð félagið sáttur við mitt framlag," segir Sævar.

Eitt elsta fjármálafyrirtæki landsins

Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki með viðskiptavini um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og er því í hópi elstu starfandi fjármálafyrirtækja landsins. Höfuðstöðvarnar eru á Akureyri en félagið er jafnframt með skrifstofu í Reykjavík. Starfsmenn eru 20 talsins. Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingafélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar. Eignir í stýringu námu um 120 milljörðum króna í lok júní 2011 og hagnaður af starfsemi félagsins árið 2010 nam 170 milljónum króna. Félagið hefur skilað hagnaði óslitið frá árinu 2002.