Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segist ekki ætla að taka sérstaklega til umfjöllunar þau orð Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem sagði á þinginu í dag að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra færi ekki með rétt mál.

Sigmundur sagði í gær að að tillögur ríkisstjórnarinnar um lækkun barnabóta væru rangar getgátur Árna Páls Árnasonar. Helgi sagði á þinginu í dag að raunin væri sú að þessi tillaga hefði verið formleg tillaga ríkisstjórnarinnar sem hefði verið stíluð á formann fjárlaganefndar. Í kjölfarið bað hann forseta Alþingis að láta þetta mál til sín taka.

Einar segir að þessi orð Helga eigi að beinast að forsætisráðherra sjálfum sem verði að svara fyrir þau sjálfur. Hann sé enginn dómari í skoðanaskiptum einstakra þingmanna.