Einar K. Guðfinnsson, fv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var sjálfkjörinn í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, en kosið var á listann á fundi kjördæmaráðs flokksins í dag.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, var kjörinn í annað sæti listans og í þriðja sæti var kjörin Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitastjóri í Tálknafirði. Þá var Sigurður Örn Ágústsson kjörinn í fjórða sæti.

Þetta er eini listi Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar næsta vor sem valinn er með þessum hætti en í öðrum kjördæmum fer fram prófkjör.

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður flokksins, gaf ekki kost á sér aftur en hann felldi Einar K. í prófkjöri fyrir kosningarnar vorið 2009. Haraldur Benediktsson er að gefa kost á sér í fyrsta sinn og árangur hans vekur nokkra athygli. Kosning kjördæmaráðs í fjögur efstu sætin er bindandi en það er síðan kjörnefndar að raða upp lista flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn er í dag með tvo þingmenn í kjördæminu. Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúls Capacent fengi flokkurinn um 35% fylgi og þrjá þingmenn kjörna.

Haraldur Benediktsson - Formaður bændasamtakanna
Haraldur Benediktsson - Formaður bændasamtakanna
© BIG (VB MYND/BIG)

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.