Einar Þór Gústafsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Tix, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Einar kemur frá Aranja þar sem hann var rekstrarstjóri.

Einar var einn stofnenda Getlocal ehf og stýrði vöru- og viðskiptaþróun. Hann hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra vöruþróunar hjá bæði Meniga og Bókun ehf, sem og sinnt stöðu forstöðumanns vefdeildar Íslandsbanka og þróunarstjóra Netbanka Glitnis.

Einar var meðal stofnanda SVEF, Samtaka Vefiðnaðarins, og var formaður samtakanna árin 2009-2013. Hann er með gráðu í margmiðlun frá SAE í New York ásamt verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands.

„Ljóst er að Einar kemur með mikla reynslu og þekkingu inn í teymið hjá Tix og erum við í Tix full tilhlökkunar og erum sannfærð um að Einar verði frábær viðbót við okkar góða teymi,“ segir í fréttatilkynningu.

Tix íslenskt miðasölufyrirtæki sem er þessa dagana að stækka hratt erlendis. Tix hóf útrás út fyrir landsteinana árið 2017 þegar það opnaði í Danmörku, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð og fyrir ári síðan, í miðjum kórónuveirufaraldrinum hóf það útrás út fyrir Norðurlöndin og selur nú einnig miða í Belgíu og Hollandi og stefnir á sölu miða í Bretlandi á næstu misserum.