,,Af hverju kallar forsetinn ekki vini sína, útrásarvíkingana, til sín og skipar þeim að skila góssinu, því hagfræðingar segja að það sé ekki fræðilegur möguleiki að búið sé að eyða þeim skuldum sem stofnað var til. Þetta er eina leið forsetans til þess að ávinna sér traust þjóðarinnar.”

Þetta segir Einar Már Guðmundsson rithöfundur í grein í Morgunblaðinu í dag, en hann hefur mjög látið til sín taka í ræðu og riti eftir bankahrunið.

Og Einar heldur áfram:

,,Í stað þess að bjóða útrásarvíkingunum í mat með amerískum fjárglæfrakonum á hann að taka þá á beinið og skikka þá til. Þannig myndi forsetinn skrá nafn sitt í sáttargerðarbók sögunnar eins og gert var á Þingvöllum fyrir um þúsund árum. Ella mun hann horfa upp á meiri stéttaskiptingu, dýpri skotgrafir og algjört vantraust, því bæði hann og jafnaðarmennirnir í Samfylkingunni tóku þátt í að blekkja þjóðina og alþjóðasamfélagið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þar liggur ábyrgðin, blaðið sem nú þarf að snúa við.”