Viðskiptablaðið leitaði til nokkurra einstaklinga nú þegar líður að stærsta sprengjukvöldi ársins og kannaði hug þeirra til flugelda.

„Ég er ekki mjög sprengjuóður, kaupi reyndar alltaf tvær góðar rakettur, eina til að kveðja gamla árið og aðra til að fagna því nýja. Svo eru það bara stjörnuljósin og blys fyrir krakkana," segir Einar Þorsteinsson, fréttamaður á RÚV.

Einar man þó eftir einu gamlárskvöldi þar sem hann sprengdi upp meira en eina til tvær rakettur: „Ég varði áramótunum eitt sinn sem oftar með fjölskyldunni minni. Mágur minn, rólyndismaðurinn Ólafur Stefánsson, hafði það árið látið plata sig til að kaupa einhverskonar flugeldasýningartertu hjá Val. Hann vissi hvorki hvað snéri upp né niður á þessu og við eyddum hálfu kvöldinu í að leita að kveikiþræðinum," segir Einar.

En þetta reyndist bara byrjunin: „Þetta var tveggja mann tak að drösla þessu út á götu. Á miðnætti kveikti ég svo í þessu og okkar friðsæla íbúðahverfi í Kópavogi breyttist í stríðsvettvang þar sem eldi rigndi yfir okkur og þvílíkar sprengingar drundu. Nágrannarnir þustu út því að viðvörunarkerfin í bílunum þeirra fóru í gang. Enn þann dag í dag get ég ekki hugsað til áhrifanna á dýrin í hverfinu. Við höfum hvorugur keypt mikið af flugeldum síðan enda ljóst að þarna var ákveðnum hápúnkti náð," segir Einar.