Einar U. Johansen hefur verið ráðinn sem aðstoðarforstjóri Beringer Finance og framkvæmdastjóri bankans í Noregi. Einar kemur til Beringer frá Swedbank þar sem hann hefur undanfarin 6 ár verið yfir þeim hluta fjárfestingarbankasviðs Swedbank sem sinnir alþjóðlegri lána- og skuldabréfafjármögnun fyrir viðskiptavini bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Beringer Finance.

„Sú mikla reynsla af fjárfestingarbankastarfsemi og stjórnun sem Einar býr yfir mun bæta enn frekar gæði þeirrar ráðgjafar og þjónustu sem bankinn veitir viðskiptavinum sínum. Einar kemur til okkar á áhugaverðum tímapunkti þar sem starfsemi bankans í Noregi og Svíþjóð hefur vaxið umtalsvert á undanförnum misserum og mörg stór fjárfestingarverkefni eru í farvatninu. Þá höfum við styrkt stjórnendateymi bankans á Íslandi með nýjum reynslumiklum einstaklingum sem þegar hafa skilað góðum árangri”, segir Aðalsteinn Jóhannsson forstjóri Beringer Finance.

Einar U. Johansen tekur formlega til starfa 1. apríl n.k. Hann mun taka sæti í framkvæmdastjórn bankans og mun sem aðstoðarforstjóri, ásamt forstjóra, hafa umsjón með stefnumótun, viðskiptaþróun og sóknaráætlunum bankans.

„Beringer Finance byggir á traustum grunni, hefur góða verkefnastöðu, skýra stefnu, öflugt starfsfólk og sterka eigendur. Með 100 ára fjárfestingarbankasögu Fondsfinans, alþjóðlegan styrk Beringer Finance og metnað fyrir vexti inn á nýja markaði er ég afar spenntur. Saman munum við taka næstu skref í að byggja enn sterkari Beringer Finance bæði í Noregi og á alþjóðavísu”, segir Einar U. Johansen.

Arne Egil Rønning sem í dag er framkvæmdastjóri yfir Noregi mun samtímis láta af störfum. „“Ég vil þakka Arne Egil fyrir störf hans og framlag undanfarin ár hjá Fondsfinans og sérstaklega þátt hans í sameiningu félaganna á síðasta ári”, segir Aðalsteinn Jóhannsson.“

Einar Unhjem Johansen hefur yfir 20 ára reynslu af fjárfestingabankastarfsemi og starfaði síðast hjá Swedbank sem yfirmaður lána- og skuldabréfafjármögnunar á fjárfestingabankasviði bankans. Innan þeirrar deildar Swedbank byggði Einar m.a. upp ráðgjafateymi sem sá um yfirtökufjármögnun og áframsölu lána (e. syndication).

Einar hefur starfað við flest svið alþjóðlegrar fjárfestingabankastarfsemi, m.a. annars hjá Goldman Sachs í New York og London frá 1997 til 2004, Deutsche Bank frá 2004 til 2006 og sem framkvæmdastjóri hjá Bank of America Merill Lynch frá 2006 til 2010. Árið 2010 flutti Einar aftur til Noregs og stofnaði einingu innan verðbréfafyrirtækisins First Securities (sem síðar sameinaðist Swedbank) sem sá um ráðgjöf vegna lána- og skuldabréfarfjármögnunar.

Einar er með B.Sc. gráðu í fjármálum frá Univeristy of Utah, MBA gráðu frá IESE í Barcelona og lauk AMP stjórnendanáminu (Solstrand programmet – AFF) hjá Norwegian School of Economics árið 2015.