*

sunnudagur, 5. júlí 2020
Fólk 2. maí 2018 13:38

Einar nýr forstjóri Coca-Cola á Íslandi

Einar Snorri Magnússon tekur við sem forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, áður Vífilfell, af Carlos Cruz.

Ritstjórn
Einar Snorri Magnússon er nýr forstjóri fyrirtækisins sem áður hét Vífilfell en heitir núna Coca-Cola European Partners á Íslandi.
Aðsend mynd

Einar Snorri Magnússon hefur tekið við sem forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi af Carlos Cruz.  Einar hefur starfað hjá Coca-Cola á Íslandi (áður Vífilfell) í 13 ár og sinnt ýmsum stjórnunarstörfum en síðastliðin 3 ár hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs.

Einar, sem er með B.Sc. í Alþjóðamarkaðssfræði frá Tækniskóla Íslands og MBA frá Edinborgarháskóla, segir það heiður að fá að taka við stöðunni enda séu framundan spennandi tímar hjá fyrirtækinu.

„Ég tek við góðu búi af Carlos, hann hefur leitt árangursríka innleiðingu okkar í CCEP og við þökkum honum óeigingjarnt starf síðastliðin 3 ár,“ segir Einar Snorri.

„Coca-Cola hefur verið hluti af þjóðarsálinni í 76 ár og við seljum ýmsar af ástkærustu drykkjarvörum landsmanna. Við erum í stöðugri þróun, bæði fyrirtækið sjálft sem og vörurnar sem við seljum, og höfum til að mynda verið leiðandi á sviði sjálfbærni hér á landi.“   

CCEP er stærsta átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum og leiðandi fyrirtæki á markaði með neytendavörur í Evrópu. CCEP er með 24.000 starfsmenn í 13 löndum í Vestur-Evrópu og framleiðir og markaðssetur nokkur af vinsælustu drykkjuvörumerkjum heims til yfir 300 milljóna neytenda.