Fastus hefur ráðið Einar Hannesson í starf framkvæmdastjóra. Einar starfaði áður sem útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ. Þar áður starfaði Einar lengstum sem forstöðumaður flugafgreiðslusviðs Icelandair Grounds Services. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu

Stefnt er að því að Einar hefji störf hjá Fastus fyrir áramót en haft er eftir Einari í tilkynningunni að hann sé fullur tilhlökkunnar yfir því að taka við nýju starfi. Einar segir að Fastus sé spennandi fyrirtæki á líflegum markaði. Hann kveðst spenntur yfir því að vera þátttakandi og þróa og móta framtíðarstefnu fyrirtækisins.

Einar er með BSc gráðu í iðnaðartæknifræðu auk MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Eiginkona Einars er Magndís Andrésdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau þrjú börn.

Fastus er framsækið þjónustufyrirtæki sem sér fyrirtækjum og stofnunum á heilbrigðissviði, og í rekstri tengdum matvælum og iðnaði, fyrir tækjum, búnaði og rekstrarvörum.  Hjá félaginu starfa 50 manns.