Einar Oddson hefur hafið störf hjá Kóða ehf. sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Hann mun leiða þróun viðskiptalausna hjá fyrirtækinu en félagið sérhæfir sig í þróun hugbúnaðar fyrir fjármálamarkaðinn. Kóði á og rekur Kelduna, upplýsingaveitu fyrir íslenskt fjármála- og viðskiptalíf og Vaktarann sem sinnir net- og fjölmiðlavöktun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Kóði rekur jafnframt verðbréfaviðskiptakerfið KODIAK en yfir 90% af viðskiptum í kauphöll NASDAQ OMX fara í gegnum kerfið.

Einar hefur 12 ára reynslu af fjármálamarkaði síðast sem verðbréfamiðlari hjá Íslenskum verðbréfum þar áður sem framkvæmdastjóri og annar stofnenda Questor ehf. Þar á undan starfaði Einar sem forstöðumaður markaðsviðskipta hjá World Financial Desk LLC í New York á árunum 2008 – 2015. Fyrirtækið sinnir rafrænum hátíðniviðskiptum með skuldabréf og afleiður á  alþjóðamörkuðum. Einar hefur jafnframt setið í stjórnum ýmissa félaga meðal annars hjá Straumi sjóðum hf. og sem stjórnarformaður Útgerðarfélagsins Hólmgarðs.  Einar stundaði hagfræðinám við Fordham University í New York og útskrifaðist þaðan með M.A. gráðu árið 2008. Hann stundaði jafnframt nám við Adelphi University í New York fylki og útskrifaðist þaðan með B.A. gráðu í hagfræði árið 2006.

„Það er mikið ánægjuefni að fá Einar til liðs við Kóða. Einar hefur mikla reynslu af þróun lausna á fjármálamarkaði auk þess hefur hann unnið fyrir okkur sem ráðgjafi og þekkir því félagið mjög vel. Það felast heilmikil tækifæri í miðlun markaðsgagna og í þróun fjármála- og fjárfestatenglalausna þar kemur reynsla Einars vel fyrir fyrirtækið,“ segir Thor Thors, framkvæmdastjóri Kóða.