Einar Þór Magnússon hefur verið ráðinn nýr fjármálastjóri Eimskips á Íslandi. Ráðning Einars er liður í því að auka enn frekar áherslur á rekstur Eimskips á Íslandi og aðgreina hann frá öðrum einingum að því er kemur fram í tilkynningu. Sú vinna hófst með ráðningu Guðmundar P. Davíðssonar sem forstjóra félagsins á Íslandi.

Einar mun stýra fjármálasviði félagsins á Íslandi og undir hann mun heyra hagdeild, bókhald, innheimta og fasteignaumsjóns o.fl. Einar mun sitja í framkvæmdastjórn Eimskips á Íslandi.

Helgi Júlíusson sem hefur verið fjármálastjóri á Íslandi sl. ár mun alfarið flytjast yfir í verkefni hjá samstæðu félagsins til að styrkja þann hluta félagsins samfara stækkun félagsins. Meðal verkefna Helga hjá samstæðu félagsins verða samskipti við lánastofnanir og fjárstýring.

Velta og umsvif Eimskips þrefölduðust á síðasta ári og er velta félagsins á Íslandi nú um 20% af heildarveltu samstæðunnar. Því er mikilvægt að styrkja samstæðu félagsins auk þess að aðgreina verkefni milli rekstursins á Íslandi og samstæðu til að tryggja betri gæði á báðum stöðum. Starfsmenn félagsins í heild eru nú um 14.000 þar af um 1.000 á Íslandi.

Einar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands af fjármálasviði og hefur viðtæka reynslu úr viðskiptalífinu. Hann var m.a. fjármálastjóri hjá Bræðrunum Ormson frá 2003-2007 og vann hjá Búnaðabanka Íslands frá 2002-2003.