Í viðtali við Viðskiptablaðið í september 2009 nefndi Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, að vel kæmi til greina að skrá Skeljung á markað. Hins vegar hefði ekkert verið ákveðið í þeim efnum.

Aðspurður um það í dag hvort enn komi til greina að skrá félagið segir Einar Örn að það sé ekki á formlegri dagskrá sem stendur þótt hann vilji ekki útiloka neitt. Það sé alfarið undir núverandi eigendum komið. Þetta kemur fram í viðtali við Einar Örn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Staða okkar hefur styrkst verulega síðustu misseri, skuldirnar hafa lækkað og reksturinn er betri þannig að við færumst nær því að vera ákjósanlegt fyrirtæki á markaði,“ segir Einar Örn.

„Ég myndi segja að Skeljungur sé félag sem gæti sómt sér vel í Kauphöllinni. En það þarf að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Mér sýnist mjög mikil ásókn félaga þessa stundina í það að skrá sig í Kauphöllina, sem mig grunar að tengist að einhverju leyti því að það vantar fjárfestingarkosti á Íslandi. Lífeyrissjóðirnir og raunar aðrir fjárfestar eru margir fastir með sína peninga inni í landinu og hafa takmarkaða fjárfestingarmöguleika. Það sem hægt er að kaupa eru skuldabréf og fasteignir og svo eitthvað takmarkað magn hlutabréfa. Mér sýnist því miður allar aðstæður bólueinkenna vera fyrir hendi og mér finnst menn heldur værukærir gagnvart þessu. Seðlabankanum er í lófa lagið að tryggja að þetta gerist ekki með því að losa um gjaldeyrishöftin. Það er kannski hægara sagt en gert en það er samt hægt.“

Talandi um gjaldeyrishöftin, skaða þau ykkur ekki?

„Nei, við eins og margir aðrir erum í þeirri stöðu að dagsdaglega finnum við ekki fyrir þessu. Við höfum heimild til að kaupa gjaldeyri til að nota við kaup á eldsneyti,“ segir Einar Örn.

„En höftin eru stórskaðleg fyrir atvinnulífið og fyrir Ísland og íslenskan efnahag í heild. Höftin eru búin að vera of lengi nú þegar. Menn töluðu um að þau myndu skaða landið til lengri tíma en ég held að við séum löngu komin yfir þann tíma. Þetta gengur ekki mikið lengur. Þetta dregur úr trausti á Íslandi, bæði meðal útlendinga og eins meðal Íslendinga. Það er erfitt að stofna fyrirtæki hér sem vill hafa einhvern metnað erlendis. Mér finnst menn aðeins of rólegir yfir þessu. Ríkið getur gefið út skuldabréf út í hið óendanlega, enda geta menn ekki keypt neitt annað. Það gengur ekki til lengdar.“

Nánar er rætt við Einar Örn í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.