*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 3. desember 2014 10:24

Einar Örn og Margrét kaupa í Spakmannsspjörum

Hjónin, sem áður áttu helmingshlut í Serrano, hafa nú fjárfest í félagi Bjargar Ingadóttur, sem er móðir Margrétar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hjónin Einar Örn Einarsson og Margrét Rós Sigurjónsdóttir seldu fyrr á árinu helmingshlut sinn í veitingakeðjunni Serrano á Íslandi. Þau eiga þó og reka enn sænskan hluta þeirrar starfsemi, sem nefnist Zócalo.

Nú hafa þau keypt hlut í hönnunarfyrirtækinu Spaksmannsspjarir, sem er í eigu Bjargar Ingadóttur. „Margrét Rós, sem er dóttir mín, þekkir vörumerkið mjög vel og hefur verið með mér í ýmsum sérverkefnum frá unga aldri. Einar Örn er með mikla rekstrarreynslu og er ég mjög ánægð með að fá þetta kraftmikla fólk til liðs við mig. Að vera í fyrirtækjarekstri er lífstíll, vinnan og áhugamálið renna saman í eitt og það er því vissulega gaman að fá fjölskylduna með sér í þetta. Það eru spennandi áskoranir framundan og miklar breytingar í allri verslun og rekstri á heimsvísu og hlakka ég til að takast á við þær með nýju fólki,“ segir Björg.

Leggja áherslu á sjálfbærni

„Við ákváðum að fjárfesta í Spaksmannsspjörum því við höfum mikla trú á hugmyndum Bjargar. Eftir að hafa búið í sex ár í Stokkhólmi höfum við fengið enn frekari staðfestingu á því hversu vandaðar og framúrskarandi flíkur Spaksmannsspjarir eru“ segir Einar Örn

„Við viljum fjárfesta í fyrirtæki sem leggur áherslu á sjálfbærni í öllum þáttum rekstrarins. Við trúum því að með þessum nýju áherslum, sem og með öflugri netverslun og markaðssetningu, geti Spaksmannspjarir stækkað, styrkst og náð að sinna viðskiptavinum um allan heim," bætir Margrét Rós við.

Hjónin ákváðu að fjárfesta í félaginu eftir að hafa selt í Serrano og farið á stúfana með ný fjárfestingatækifæri.