Óhætt er að segja að sl. fjögur ár hafi staða atvinnulífsins og þeirra sem reka fyrirtæki ekki verið beysin. Samskiptin við stjórnvöld hafa verið stirð og þess utan hefur viðskiptalífið átt undir högg að sækja í umræðunni.

Þetta er meðal þess sem rætt er um í viðtali við Einar Örn Ólafsson, forstjóra Skeljungs, í Viðskiptablaðinu. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

„Menn eru aðeins að braggast um þessar mundir," segir Einar Örn aðspurður um stöðu atvinnulífsins.

„En það eru flestir á því að við séum enn á botninum og lítið að þokast upp á við. En mér finnst vera aðeins meira sjálfstraust í mönnum. Menn voru mjög brotnir eftir hrun. Þetta snýst ekki bara um afkomu fyrirtækjanna heldur finnst mér að aðilar úr viðskiptalífinu séu að finna sig aftur. Það sést t.d. á því að það voru margir sem buðu sig fram í stjórn Viðskiptaráðs í ár. Þegar ég var beðinn um gefa kost á mér til stjórnar í fyrir tveimur árum voru menn smeykir að láta kenna sig við Viðskiptaráð."

Jóhanna Sigurðardóttir braut langa hefð í síðustu viku þegar hún neitaði að ávarpa Viðskiptaþing. Hvernig hafa samskiptin við stjórnvöld verið að þínu mati?

„Steingrímur hefur mætt á fundi hjá Viðskiptaráði þannig að hann talar við okkur. Ég er sjaldnast sammála honum en hann vill þó eiga samskipti við aðila í atvinnulífinu," segir Einar Örn.

„Það er mjög óvenjulegt að forsætisráðherra vilji ekki eiga samskipti við atvinnulífið. Ég hefði haldið að Samfylkingin væri flokkur sem vildi styðja við og eiga góð samskipti við atvinnulífið en það er ekki að sjá á formanni flokksins. Hún er mjög dugleg að tala um kvótagreifana, íhaldið og nýfrjálshyggjuna og virðist vilja stilla viðskiptalífinu upp sem óvini alþýðunnar. Mér finnst það ekki stórmannlegt."

Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur nú ekki verið atvinnulífinu hliðholl, frekar en nokkrum öðrum. Hvað finnst þér um hana?

„Bensínnotkun hefur verið að dragast saman undanfarin ár og það er að hluta til hærri sköttum að kenna. Það er búið að hækka skatta og gjöld og jafnvel finna upp nýja skatta, t.d. kolefnisgjald," segir Einar Örn.

„Ég er talsmaður lágra skatta en ég hef fullan skilning á því að það hafi þurft að hækka skatta eftir hrun þó ég hefði farið aðrar leiðir að því. En skattastefnan er ekki það sem ég er ósáttastur við gagnvart stjórnvöldum. Mér finnst nálgunin öll gagnvart atvinnulífinu vera skaðlegri en skattastefnan ein og sér. Viðhorf hennar gagnvart einstaka atvinnugreinum er mjög óvinveitt og það skaðar heildina."

Nánar er rætt við Einar Örn í Viðskiptablaðinu. Í viðtalinu fer Einar Örn m.a. yfir rekstur félagsins, stöðu og samkeppni olíufélaganna almennt og mögulega skráningu á markað. Þá svarar Einar Örn spurningum um síðustu daga Glitnis þar sem hann var áður starfsmaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.