Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings nú upp úr hádegi, líkt og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá. Sjö voru sakfelldir og tveir sýknaðir samkvæmt dóminum, en Ingólfur Helgason og Bjarki H. Diego hlutu þyngstu dómana.

Þrír sakborninganna hlutu skilorðsbundna dóma og þurfa því ekki að afplána refsingu í fangelsi nema þeir gerist aftur sekir um refsibrot á refsitímanum. Einar Pálmi Sigmundsson hlaut tveggja ára skilorðsbundna refsingu, en Pétur Kristinn Guðmarsson og Birnir Sær Björnsson voru dæmdir í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þeir voru allir starfsmenn eigin viðskipta bankans.

Dómarnir eru í þyngri kantinum miðað þeir séu skilorðsbundir, samkvæmt þeim lögfræðingum sem Viðskiptablaðið hefur rætt við.

Ástæður skilorðsákvörðunar geta verið margar. Samkvæmt hegningalögum er það mat alfarið í höndum dómara. Algengar ástæður skilorðsbindindar eru ungur aldur þess sem gerist brotlegur eða hann hafi ekki gerst áður sekur um refsilagabrot.

Viðskiptablaðið hefur dóminn ekki undir höndum, en mun greina frá aðalatriðum hans innan skamms.