Stjórn Árvakurs samþykkti á fundi sínum í morgun að ráða Einar Sigurðsson í starf forstjóra félagsins eins og lesa má í frétt frá félaginu. Einar var áður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu IMG.

Einar er með M.Sc. gráðu í stjórnmálafélagsfræði frá London School of Economics í London og BA gráðu í fjölmiðlafræði. Hann var framkvæmdastjóri stefnumótunar-, stjórnunarsviðs og viðskiptaþróunar hjá Flugleiðum og síðar FL GROUP frá árinu 1997 og vann með forstjóra félagsins að þeim miklu breytingum sem orðið hafa á skipulagi og starfsemi félagsins undanfarin ár. Hann var um árabil talsmaður Flugleiða.

Einar var fyrsti framkvæmdastjóri Íslenska útvarpsfélagsins, sem setti á laggirnar útvarpsstöðina Bylgjuna árið 1986. Þar áður starfaði hann sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi og sinnti ýmis konar þáttagerð auk fréttamannsstarfa.

Einar er kvæntur Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands og þau eiga tvær dætur.