Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Rekstrarstýringar og viðskiptaþróunar hjá FL GROUP hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu og samkomulag er um að starfslokin verði 1. september næstkomandi. Hann verður félaginu síðan áfram til ráðgjafar á sviði stefnumótunar að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands.

Einar hefur starfað hjá FL GROUP og áður Flugleiðum frá 1988. Hann var fyrst upplýsingafulltrúi félagsins, þá aðstoðarmaður forstjóra og loks framkvæmdastjóri frá árinu 1997, fyrst yfir stefnumótun, þá yfir stefnumótun og fjármálastýringu samstæðunnar og loks yfir rekstrarstýringu og viðskiptaþróun.

?Ég hef tekið virkan þátt í að leiða breytingar á félaginu frá því að vera flugfélag yfir í að vera í ferðaþjónustufyrirtæki og loks fjárfestingafyrirtæki. Það er ánægjulegt að hafa átt þessa samleið og sjá hve félagið hefur vaxið á undanförnum árum og hve mikill kraftur og velgengni hefur fylgt vextinum. Þetta er búinn að vera lærdómsríkur og mjög árangursríkur tími og starfið fyrst og fremst snúist um breytingar sem þurfti að gera á félaginu. Nú langar mig að gera breytingar á eigin högum," segir Einar Sigurðsson.

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL GROUP óskar Einari velfarnaðar og segir hann hafa verið einn af lykilmönnum Flugleiða og síðan FL GROUP. Hann hafi tekið þátt í að leiða þær breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirtækinu sem lagt hafa grunn að þeim árangri sem það hefur náð.