Einar Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá IMG, segir í tilkynningu frá IMG. Einar mun vinna að þróun og vexti IMG samstæðunnar, ásamt Skúla Gunnsteinssyni forstjóra og yfirstjórn félagsins.

Hann mun jafnframt vinna að þróun nýrrar fyrirtækjaráðgjafar fyrir stjórnir og stjórnendur stærri fyrirtækja í samvinnu við IMG ráðgjöf og Advisory í Danmörku. Megináhersluþættir í þeirri vinnu verða hámörkun hluthafavirðis, stefnumörkun og stefnumótandi áætlanagerð. Einar kemur einnig inn í hóp eigenda IMG, segir í tilkynningunni.

Viðskiptaþróun er nýtt svið í starfsemi móðurfélags IMG samstæðunnar.

?Félagið hefur sett sér markmið um öran vöxt og kaupin á KPMG Advisory í Danmörku sem tilkynnt voru fyrr í þessari viku eru fyrsta skrefið í þá átt. Með þeim kaupum tvöfaldast velta IMG. Markmið félagsins er að auka verðmæti samstæðunnar með þróun og yfirtöku nýrrar starfsemi sem gefur færi á faglegri og rekstrarlegri samlegð," segir IMG

Félagið segir að einnig verði lögð áhersla á að þróa áfram þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi í fyrirtækinu. Meðal viðskiptavina IMG eru nú langflest af 100 stærstu fyrirtækjum á Íslandi, segir IMG. Íslensk fyrirtæki hafa stækkað hratt á undanförnum misserum og starfsemi þeirra er í vaxandi mæli á alþjóðavettvangi. IMG telur mikilvægt að geta þróað ráðgjafarþjónustu sína í takt við þessar breytingar í atvinnulífinu og byggt upp alþjóðlega ráðgjafarstarfsemi sem á erindi við stjórnir og stjórnendur fyrirtækjanna í þessari breyttu mynd.

Einar Sigurðsson er með M.Sc. gráðu í stjórnmálafélagsfræði frá London School of Economics í London og BA gráðu í fjölmiðlafræði. Hann var framkvæmdastjóri stefnumótunar-, stjórnunarsviðs og viðskiptaþróunar hjá Flugleiðum og síðar FL GROUP frá árinu 1997 og vann með forstjóra félagsins að þeim miklu breytingum sem urðu á skipulagi og starfsemi félagsins undanfarin ár.

Einar var fyrsti framkvæmdastjóri Íslenska útvarpsfélagsins sem setti á laggirnar útvarpsstöðina Bylgjuna árið 1996. Þar áður starfaði hann sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi og sinnti ýmis konar þáttagerð auk fréttamannsstarfa.

Einar er kvæntur Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands og þau eiga tvær dætur.