Einar Skúlason, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, býður sig fram í 1. sæti hjá Framsókn í Reykjavík suður.

Í tilkynningu um framboð sitt segir Einar:

„Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að halda áfram því breytingaferli sem er hafið á Framsóknarflokknum og samfélaginu. Með öfgalausum sjónarmiðum, sem byggjast á samvinnu, félagshyggju og mannúð, þá mun Framsókn gegna mikilvægu hlutverki í að leiða þjóðina úr þeim erfiðleikum sem við búum við. Lykilatriði eru atvinna og velferð, að auka atvinnu og byggja á þeim styrkleikum sem við höfum í atvinnulífi þjóðarinnar, auk þess að þétta öryggisnet velferðarkerfisins til að tryggja að grunnþörfum allra sé mætt.

Ég er 37 ára gamall, þriggja barna faðir, með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Ég hóf störf um áramótin sem skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins og mun taka mér launalaust leyfi frá þeim störfum frá og með deginum í dag, þangað til í ljós kemur hvernig efstu sæti listans verða skipuð. Ég starfaði áður sem framkvæmdastjóri Alþjóðahússins um fimm og hálfs árs skeið. Ég hef verið félagi í Framsóknarflokknum í  13 ár og sinnt margs konar trúnaðarstörfum, var m.a. formaður Sambands ungra framsóknarmanna í þrjú ár. Þá sat ég í Stúdentaráði H.Í. fyrir Röskvu og var framkvæmdastjóri ráðsins 1996-97.“