Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal. Einar hefur störf á Bíldudal 1. nóvember næstkomandi. Íslenska kalkþörungafélagið er í eigu írska fyrirtækisins Celtic Sea Minerals Ltd.

Fram kemur í tilkynningu að Íslenska Kalkþörungafélagið var stofnað að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða árið 2001. Í lok árs 2003 öðlaðist félagið vinnsluleyfi í Arnarfirði og sama ár tóku Celtic Sea Minerals Ltd á Írlandi (75%) og Björgun ehf (25%) við rekstrinum. Starfsleyfi verksmiðjunnar heimilar framleiðslu á allt að 50.000 tonnum af kalki á ári og gildir leyfið til 1. nóvember 2022. Afurðir verksmiðjunnar eru steinefnafóður og  jarðvegsbætiefni og eru vottaðar sem lífræn framleiðsla. Starfsmenn á Bíldudal eru um 20 auk afleiddra starfa.

Einar Sveinn hóf störf hjá Þörungaverksmiðjunni í október 2011 og segir hann að tíminn á Reykhólum hafi verið mjög góður og verkefnin skemmtileg. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu í starf framkvæmdastjóra Þörungaverksmiðjunnar, en stjórn félagsins mun fara yfir þau mál á næstu vikum.

Rekstur Þörungaverksmiðjunnar gengur vel og eru allar afurðir þaðan seldar fyrirfram á erlenda markaði. Hjá verksmiðjunni starfa 16 manns. Vorið 2011 var Grettir, nýtt og öflugra þangflutningaskip, tekið í notkun og undanfarna mánuði hafa starfsmenn unnið að innleiðingu nýrra verkferla í stjórnun öryggis- og umhverfismála undir kjörorðinu Think Safe.