*

föstudagur, 17. september 2021
Innlent 17. febrúar 2014 10:04

Einar Sveinsson tapaði skattamáli gegn ríkinu

Einar hagnaðist um rúma 2,4 milljarða á sölu hlutabréfa í Glitni árið 2007.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Einar Sveinsson.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fjárfestirinn Einar Sveinsson, fyrrverandi formaður stjórnar gamla Íslandsbanka, síðar Glitnis, og kona hans töpuðu í héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku skattamáli sem þau höfðuðu gegn íslenskra ríkinu. Málið snerist um að Einar og kona hans færðu sölutap á hlutabréfum í bresku félagi á móti söluhagnaði við sölu á hlutabréfum í Glitni árið 2007. Fjölmörg keimlík mál hafa verið tekin til umfjöllunar í dómskerfinu síðustu misserin.

Fékk 950 milljónir í arð

Fram kemur í málinu að þau Einar og kona hans hafi 16. ágúst árið 2007 keypt hlutabréf í breska félaginu Melrose PLC fyrir sjö milljónir punda, jafnvirði þá um 914,5 milljóna íslenskra króna. Sjö dögum síðar, þann 23. ágúst 2007, seldu þau svo Glitni banka sömu hlutabréf á 10 pund eða 1.284 krónur. Þann sama dag féll í gjalddaga arðgreiðsla Melrose PLC upp á 7.315.555 punda eða sem nemur  954,7 milljónum króna sem félagið greiddi þeim Einari og konu hans 31. ágúst 2007. Á hinn bóginn taldi Einar og kona hans að sölutap þeirra af hlutabréfunum í breska félaginu hafi numið rúmum 964 milljónum króna. Tapið drógu þau frá hagnaði af sölu hlutabréfa í Glitni upp á 2.446 milljónir króna á grundvelli tiltekinnar undantekningarheimildar. Þetta ásamt frítekjumarki gerði það að verkum að hagnaður af sölu hlutabréfa nam 1.482.250.891 króna árið 2007 að því er fram kemur í skattframtali þeirra Einars og konu hans. Arðurinn upp á 954,7 milljónir króna var jafnframt til tekinn í athugasemdareit á forsíðu skattframtalsins.

Birti Einari endurákvörðun með 25% álagi

Skattstjóri heimilaði ekki frádrátt á meintu tapi af sölu hlutabréfanna frá hagnaði annarra og færði hagnað af sölu Glitnis-bréfanna að fullu sem skattskyldar tekjur ásamt því að bæta við 25% álagi. Þrátt fyrir mótmæli þeirra hjóna var yfirskattanefnd sammála skattstjóra.

Í dómi héraðsdóms segir:

„Það er meginregla skattaréttar að skattaðilar eigi að greiða skatt af öllum tekjum sínum nema þær séu beinlínis undanþegnar skattlagningu lögum samkvæmt, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003. Í samræmi við þessa grunnreglu er sú meginregla í 1. mgr. 24. gr. sömu laga að tap af sölu eigna, sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri, sé ekki heimilt að draga frá skattskyldum tekjum, en undantekningu frá þessari meginreglu sem stefnendur byggja á sem áður segir er að finna í 2. málslið 1. mgr. 24. gr. sömu laga  sem hljóðar svo: „Áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna er ákveðinn má skattaðili þó draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári.““

Þá er tekið fram í dóminum að fjögur skilyrði eru fyrir frádrætti, en þau eru í fyrsta lagi að um sölu hafi verið að ræða, í öðru lagi að um sams konar eignir hafi verið að ræða og í þriðja lagi að um tap hafi verið að ræða og í fjórða lagi að ráðstafanirnar hafi átt sér stað á sama ári.