„Óhjákvæmilegt er að þau þingmál sem stjórnarmeirihlutinn hyggst leggja fram líti sem fyrst dagsins ljós, annars vegar á haustþingi og síðan eftir áramótin. Ekki nokkrum dögum fyrir framlagningarfrest, eða eftir að hann er liðinn, heldur í tæka tíð með skikkanlegum hætti,“ segir Einar K. Guðfinnsson. Hann tók við sem forseti Alþingis í dag. Í ræðu sinni við setningu Alþingis sagði hann margt sem þurfi að bæta og laga á Alþingi. Það helsta sem þurfi að laga er tilhneiging þingmanna til að leggja mál fram fáeinum dögum fyrir lögbundinn frest. Þetta jókst hjá stjórnarmeirihlutanum á síðasta kjörtímabili, að hans mati.

Einar taldi í ræðu sinni upp hvernig málum var háttað upp á síðkastið og séu dæmi um að meirihluti stjórnarfrumvarpa hafi komið rétt fyrir fyrir eða við lok framlagningarfrests og nokkur að honum liðnum.

„Það sjá allir að þetta getur ekki gengið svona. Tími Alþingis nýtist illa og svona háttalag kallar beinlínis fram ónauðsynleg átök hér á Alþingi á aðventunni og á vordögum ár hvert. Þetta er plagsiður sem er klár uppskrift að vandræðum og verður að leggja af,“ sagði Einar í ræðu sinni og boðaði bryetingar.

„Við verðum að sjá breytingu á þessu strax á nýju kjörtímabili.  Þetta á að vera meginregla — og ófrávíkjanleg regla þegar um er að ræða viðurhlutamikil mál, svo ekki sé talað um stórpólitísk ágreiningsefni. Það veitir þingmönnum tækifæri til að ræða þau mál innan eðlilegra tímamarka og hafa áhrif á útkomu þeirra í umræðum og með störfum í þingnefndum. Þegar mál koma seint fram á stjórnarandstaða á hverjum tíma ekki margra kosta völ. Í stað þess að umræða og nefndarvinna eigi sér stað eins og við flest kjósum kalla slík vinnubrögð á langar umræður, málþóf og átök af því tagi sem vel má komast hjá. Nýtt háttalag, eins og ég kalla nú eftir, er því forsenda þess að Alþingi geti ástundað vinnubrögð sem ég fullyrði að vilji alþingismanna stendur til.“