Fjórmenningarnir í Al-Thani málinu, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, eru dæmdir fyrir umboðssvið og markaðsmisnotkun.

Í dómi Hæstaréttar segir að við ákvörðun refsingar verði að líta til þess  að umboðssvikin hafi snúist um „gífurlegar fjárhæðir". Háttsemi hinna ákærðu hafi falið sér „alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns".

Þá segir að markaðsmisnotkunin hafi beinst „í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot".

Enn fremur segir að brotin er varða markaðsmisnotkun hafi verið „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi. Öll voru brotin framin í samverknaði og beindust að mikilvægum hagsmunum."

Í dóminum segir einnig:„Ákærðu, sem ekki hafa sætt refsingu fyrr, eiga sér engar málsbætur".