"Ég held að umræðan um tvíbreið og einbreið göng falli um sjálfa sig í ljósi breyttra tíma. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er hvergi, svo vitað sé, verið að grafa einbreið göng í heiminum í dag. Hönnun jarðganga hér er miðuð við norska staðla. Ég tel að í framtíðinni muni engum detta í hug að nefna, hvað þá byggja, einbreið jarðgöng," segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra í nýjum pistli á heimasíðu sinni.

Þar kemur einnig fram að ákvörðun um að gera Héðinsfjarðargöngin tvíbreið var tekin á grundvelli breytinga á norskum stöðlum í jarðgangagerð á árinu 2003. Þar segir að væru jarðgöng lengri en 5 km skyldu þau vera tvíbreið. Í dag eru þetta alþjóðlegar kröfur. Lengri kafli Héðinsfjarðaganga er 6,9 km.

Í grein sinni bendir samgönguráðherra ennfremur á nýjar aðferðir við mat á forgangsröðun framkvæmda sé í skoðun: "Samkvæmt lögum um samgönguáætlanir er það Samgönguráð sem vinnur að undirbúningi samgönguáætlunar. Á vegum þess og í samstarfi við samgönguráðuneytið var ákveðið að hefja samstarfsverkefni haustið 2004 í samvinnu við Hagfræðistofnun HÍ. Með þeirri vinnu er ætlað að kanna aðferðir við forgangsröðun framkvæmda hjá Vegagerðinni, Flugmálastjórn og Siglingastofnun, bera þær saman við aðferðir nágrannaþjóða okkar og leggja mat á það hvort þörf er á að endurskoða þær aðferðir sem nú eru notaðar við mat á framkvæmdum. Nýtt kerfi getur þannig leitt af sér nýja forgangsröðun á stærri verkefnum þar sem vægi t.d. umhverfisþátta og slysatíðni verður endurmetið. Vonast er til að endurskoðað kerfi fyrir forgangsröðun og arðsemismat muni veita stuðning við ákvarðanatöku um verkefni á samgönguáætlun í framtíðinni."