Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að undanfarin ár hafi mikil áhersla verið lögð á að byggja upp flutningskerfi raforku og bæta raforkuöryggi í takt við auknar kröfur um meiri flutning orku um landið. „Þessi verkefni hafa skilað árangri víða á landinu. Hins vegar hafa áform um styrkingu meginflutningskerfisins gengið hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir og árangurinn því minni en vonir stóðu til."

Mikilvægt sé að stærri línuframkvæmdir verði að veruleika í ljósi þess hversu mikilvægar þær eru öryggi stórra landsvæða. Þannig hafi byggðalínuframkvæmdir áhrif á stóran hluta landsins, má þar nefna Vestur-, Norður- og Austurland en einnig hafi Suðurnesjalína 2 áhrif á allan Reykjanesskagann. „Vegna tafa í stóru verkefnunum er staðan sú að litlir möguleikar eru á aukinni orkunotkun mjög víða. Hins vegar mun staðan batna mjög hratt gangi áætlanir Landsnets eftir um styrkingar í meginflutningskerfinu," segir Guðmundur. Þá nefnir hann að nútíma samfélag krefjist öruggs aðgengis að rafmagni en einnig sé ljóst að við munum verða háðari rafmagni á næstu árum vegna fyrirhugaðra orkuskipta.

Jafngildi Kröfluvirkjunar til spillis

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði í upphafi árs starfshóp til að vinna skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Skýrslan tilgreinir að skilgreindur líftími flutningslína sé 50 ár en hjá tengivirkjum sé hann 40 ár, en rúmlega fjórðungur af línukerfi Landsnets verður kominn yfir skilgreindan líftíma eftir þrjú ár. Á undanförnum áratug hafi um fjórðungur tengivirkja verið byggður eða endurnýjaður. Hins vegar séu 17% þeirra eldri en 40 ára og því komin yfir skilgreindan líftíma.

„Að byggja yfir tengivirki og gera þau óháð veðri og vindum er mikilvægt öryggismál fyrir kerfið. Á þetta hefur verið lögð áhersla á undanförnum árum og eru nú um 65% tengivirkja Landsnets yfirbyggð. Stefnt er að því að öll tengivirki verði yfirbyggð á næstu 15 árum. Þetta mun leiða til aukins öryggis kerfisins og lægri kostnaðar. Með Blöndulínu 3 er ætlunin að bæta tengingu flutningskerfa raforku milli Suðvesturlands og Norður- og Austurlands. Þeirri línu er ætlað að auka flutninginn og bæta öryggið á svæði byggðalínunnar sem er 900 kílómetrar að lengd og liggur hringinn í kringum landið frá Sigöldu til Hvalfjarðar," segir Guðmundur.

Í skýrslunni Staða og áskoranir í orkumálum kemur fram að sökum flutningstakmarkana og óstöðugleika séu skerðingar á raforkuafhendingum sífellt að aukast og muni halda áfram að gera það. Um 2% af þeirri raforku sem flutningskerfið taki við nái ekki til notenda, en það samsvari um 400 GWst á ári sem jafngildir allri framleiðslu Kröfluvirkjunar. Með Blöndulínu 3 stefnir Landsnet að því að auka flutningsgetu og nýtingu innan kerfisins með því að tengja saman virkjanir sem muni síðan leiða til aukins afhendingaröryggis. Guðmundur segir styttast í að mati á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3 ljúki en umhverfismat línunnar verði í auglýsingu hjá Skipulagsstofnun til 16. maí.

„Í umhverfismatinu er aðalvalkostur kynntur en öll um gefst tækifæri á að skila inn umsögn varðandi verkefnið til Skipulagsstofnunar. Næstu skref hjá Landsneti eru síðan samráð við landeigendur um útfærslur innan jarðanna auk samninga um landnotkun. Einnig þarf framkvæmdarleyfi frá fimm sveitarfélögum á línuleiðinni til að framkvæmdir geti hafist," segir Guðmundur. Hann telur mikilvægt að einfalda ferlið í kringum svona mikilvæg innviðaverkefni og gera þau skilvirkari. „Í dag er vinna við undirbúninginn bæði tímafrek og óþarflega kostnaðarsöm. Þá er ekki tryggt að niðurstaða fáist þar sem pattstaða getur orðið í ferlinu."

Aðgerðir í kjölfar óveðurs

Fjallað er um þá miklu vá sem stafað geti af alvarlegum skorti á raforku eða straumrofi til notenda í áðurnefndri skýrslu Staða og áskoranir í orkumálum . Þjóðfélagið geti lamast og þjóðarhagur orðið fyrir miklum áhrifum.

Í kjölfar óveðursins sem gekk yfir í desember 2019 var unnin aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða. Á áætluninni voru 287 aðgerðir og undir lok síðasta árs var um 60% skammtímaaðgerðanna lokið og vinna hafin við 95% langtímaaðgerðanna. „Í óveðrinu í desember 2019 sáum við hve mikilvægt það er að hafa aðgang að rafmagni við erfiðar aðstæður og hve mikið óöryggi skapast við slíkar aðstæður þegar rafmagnið bregst," segir Guðmundur.

Nánar er rætt við Pál um orkumálin í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .