Rafmagnsþörf skipa og báta hér á landi er almennt mætt með landtengingu. Rafveitur selja rafmagn til hafna, sem selja það áfram til skipa sem liggja við bryggju. Rekstur landtenginga er því hluti af þjónustu íslenskra hafna, en hafnarsvæði eru flest með vaktmenn sem tengja skipin við tengibúnað og hleypa straumi á tenginguna.

Landtengingu hefur þó venjulega fylgt tvö vandamál. Annars vegar fylgir því talsverður kostnaður og fyrirhöfn fyrir hafnareigendur og bátaeigendur að hafnarstarfsmenn skuli iðulega þurfa að tengja skipin við rafmagn. Einnig hafa hafnir ófullnægjandi yfirsýn yfir rafmagnsnotkun skipanna, sem þýðir að þær geta ekki innheimtað greiðslur í fullu samræmi við neysluna. Báðir þessir þættir draga úr hagnaði og framlegð af rafmagnssölu hafna. Hins vegar veldur skortur á viðvörunarkerfi hættu á ofhleðslu og yfirálagi á raftenglum, sem er algengt vandamál í landtengingu, en það skapar aftur á móti hættu á útslætti og bruna.

Nýjasta hugbúnaðarlausn eTactica kemur til móts við þessi vandamál. eTactica er nýsköpunarfyrirtæki sem þróar og markaðssetur vél- og hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að fylgjast með eigin rafmagnsnotkun.

Margþættur ávinningur

„Í stuttu máli er hafnarlausnin þjónustu- og eftirlitskerfi sem einfaldar landtengingarferli fyrir skip, einkum smábáta, og heldur utan um rafmagnsnotkun þeirra þegar þeir liggja við bryggju,“ segir Torfi Már Hreinsson, sölu- og markaðsstjóri eTactica.

„Lausnin virkar þannig að skipverjar virkja raftengil með því að senda smáskilaboð (SMS) eða rafaldskenni (RFID) í númerstengil. Þeir logga sig inn með sínu númeri og virkja þannig rafmagnsflæðið í tengilinn. Að hleðslu lokinni aftengja skipverjarnir síðan tenginguna í gegnum SMS eða RFID, og yfirlit yfir rafmagnsnotkun og kostnað er sent til áhafnarinnar.“ Allt utanumhald með búnaðinum er rafrænt og allar upplýsingar um tenginguna liggja fyrir í rauntíma.

Torfi segir ávinning lausnarinnar vera margþættan. „Búnaðurinn dregur úr vinnuálagi hafnarstarfsmanna, fyrst að öll skip geta tengt sig við rafmagn sjálf. Upplýsingayfirlitið tryggir yfirsýn hafnarstarfsmanna yfir það hvaða skip eru tengd við rafmagn auk rafmagnsnotkunar hvers skips. Það auðveldar reikningagerð og gerir hana nákvæmari, sem aftur á móti bætir nýtingu rafmagns og dregur úr tekjutapi hafnanna.

Svo eykur þetta öryggi við hafnirnar. Rafmagnsnotkunin er mæld á hverjum einasta tengli í rauntíma, sem tryggir stöðugt eftirlit með ástandi tengingarinnar. Kerfið ber kennsl á yfirálag og sendir hafnarstarfsmönnum og skipverjum sjálfkrafa viðvörun ef raftengingin slær út eða hætta skapast á bruna. Með því að draga úr kostnaði og auka öryggi eykur lausnin enn fremur hvatann til að nýta landtengingu í stað þess að keyra ljósavélar, en hún dregur úr útblæstri við hafnir, sem er mjög stórt vandamál í dag,“ segir Torfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .