Haustið 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands aðgerðaráætlun um Einfaldara Ísland, sem á að framkvæma á árunum 2006-2009. Markmið hennar er að einfalda og bæta opinbert regluverk í þágu atvinnulífs og almennings. Samkvæmt leiðbeiningum forsætisráðuneytisins til ráðuneytanna um framkvæmd Einfaldara Íslands er meginmarkmiðið að létta reglubyrði almennings og atvinnulífs. Reglubyrði lýsir sér meðal annars í þeim tíma sem það tekur að átta sig á réttarstöðu sinni og að sækja nauðsynlega opinbera þjónustu, auk kostnaðar við að safna saman og miðla upplýsingum um starfsemi fyrirtækis að kröfu hins opinbera.

Ýmsar leiðir eru nefndar í leiðbeiningum forsætisráðuneytisins til að draga úr reglubyrði. Sem dæmi má nefna að fækka reglum og gera þær markvissari, að samnýta upplýsingar og samþætta opinbera þjónustu og eftirlit og að nýta sem best kosti rafrænnar stjórnsýslu og veita góðar upplýsingar um gildandi reglur. „Það hefur ekki verið hugað nægilega vel að því að fella óþarfa reglur úr gildi. Jafnvel mætti gera meira af því að setja sólarlagsákvæði í þær þannig að þær falli úr gildi eftir ákveðinn tíma nema tekin sé sérstök ákvörðun um að halda þeim í gildi,“ segir Páll Þórhallsson, deildarstjóri hjá forsætisráðuneytinu og umsjónarmaður verkefnisins Einfaldara Ísland.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .