*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 21. september 2019 14:05

„Einfaldlega galin hugmynd“

Verulegum efasemdum hefur verið lýst um að miða verðtryggingu við vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

Júlíus Þór Halldórsson
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn, Samtök fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráð og Hagsmunasamtök heimilanna eru meðal þeirra sem lýsa yfir efasemdum um þær fyrirætlanir stjórnvalda að fella húsnæðislið á brott úr vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hærri vextir og greiðslubyrði og meiri sveiflur og áhætta fyrir lántakendur eru meðal líklegra áhrifa breytingarinnar.

Til stuðnings vísitölu neysluverðs án húsnæðis sem hins nýja verðtryggingargrunns er einna helst vísað til mikillar verðhækkunar á fasteignamarkaði umfram verðlag síðustu ár. Sá liður hefur staðið undir bróðurparti höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána síðan 2012, þar sem verðbólga án húsnæðis hefur verið í sögulegu lágmarki samhliða sprengingu í eftirspurn eftir húsnæði, hvers framboð er eðli síns vegna afar tregbreytilegt til skamms og millilangs tíma.

Hefðu hækkað 31% meira eftir hrun
Segja má að með breytingunni sé verið að draga úr verðtryggingu, þar sem fasteignaverð hefur haft tilhneigingu til að hækka hraðar en almennt verðlag í sögulegu samhengi. Má því búast við að til langs tíma muni breytingin draga úr höfuðstólshækkunum.

Eftir stendur þó að lánin eru enn að fullu verðtryggð, svo að vægi annarra liða eykst á móti til að fylla í skarðið. Þannig hækka lán sem bundin eru VNVÁH meira en hefðbundin verðtryggð lán þegar fasteignaverð hækkar minna en almennt verðlag. Á því tímabili sem leiðréttingin svokallaða náði til – frá ársbyrjun 2008 til ársloka 2009 – hækkaði VNV um 26,4%, en VNVÁH um 34,6%. Þannig hefði höfuðstóll verðtryggðra lána hækkað um 8,2 prósentustig, eða 31% meira, hefði VNVÁH verið lögð til grundvallar.

Hagfræðingurinn Már Wolfgang Mixa segir hugmyndina „Einfaldlega galna“ í umsögn sinni, og bendir á að verðtryggð lán hafi stundum verið kölluð afleiður, en með þessu sé „dæmið klárað endanlega“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Verðtrygging