Með Skoda Rapid Spaceback kemur nýr valkostur fram á sjónarsviðið, mitt á milli Skoda Fabia og Octavia. Í fyrsta sinn býður tékkneski bílaframleiðandinn upp á minni bíl sem sameinar góða, hagnýta eiginleika Škoda og hönnun hlaðbaks.

Hjá Skoda hefur verið lagt mikið upp úr einfaldlega snjöllum hugmyndum (,,Simply Clever“) við hönnun bíla, og þessar lausnir bæta enn innanrýmið í Rapid Spaceback.

Þessi nýi Spaceback fæst með tvöföldu gólfi í farangursrýminu svo hægt sé að vera með geymslupláss á tveimur hæðum, sem eykur notagildið verulega. Farangursrýmið, sem rúmar 415 lítra og allt að 1380 lítra þegar búið er að leggja aftursætisbakið niður.

Þessi nýi Skoda Rapid Spaceback er fáanlegur með fjórum bensínvélum og tveimur dísilvélum.  Grunngerðin er þriggja strokka, 1,2 lítra og 75 hestöfl, með eyðslu sem nemur 5,8 l/100 km með handskiptum fimm gíra kassa.

1,2 lítra TSI vélin er 86 hestöfl og er einnig með fimm gíra handskiptum gírkassa. Eyðslan í blönduðum akstri er 5,1 l/100 km.  Endurbætt útgáfa af þessari 1,2 lítra TSI vél er 105 hestöfl og þessi vél er fáanleg með handskiptum sex gíra kassa. Aflmesta vélin í þessum nýja Spaceback er 122 hestafla, 1,4 lítra TSI. Þessi vél er eingöngu í boði með sjö gíra sjálfskiptum gírkassa með tveimur kúplingum.

Kaupendur Spaceback geta valið á milli tveggja 1,6 lítra dísilvéla með samrásarinnsprautun eldsneytis. Ný 1,6 lítra, 90 hestafla TDI. Þessa vél er hægt að fá annaðhvort með handskiptum fimm gíra gírkassa eða sjö gíra sjálfskiptum gírkassa með tveimur kúplingum. Eyðslan á þessari vél er aðeins 4,4 l/100 km. Aflmesta dísilvélin er síðan 1,6 TDI, 105 hestöfl.

Škoda Rapid Spaceback verður frumsýndur í Heklu á laugardaginn milli 12-16.