Samkeppniseftirlitið hélt í gær kynningarfund um áhrif stjórnvalda á samkeppni, en á fundinum var fjallað um mikilvægi þess að meta kerfisbundið áhrif laga og reglna á samkeppni á mörkuðum. Frummælandi á fundinum var Ania Thiemann, hagfræðingur hjá samkeppnisdeild OECD.

OECD hefur mótað aðgerðafræði við samkeppnismat við undirbúning laga og reglna, en á fundinum kom fram að þetta væri ein skilvirkasta leiðin til að einfalda lög og reglur, og þar með að draga úr reglubyrði. Nefnd voru dæmi um breytingar í framhaldi af samkeppnismati á lögum og reglum á fjórum mikilvægum sviðum atvinnulífsins í Grikklandi eru taldar skila ávinningi sem svarar til 2,5% af vergri landsframleiðslu þar í landi.

Einnig var bent á rannsóknir sem OECD hefur tekið saman að endurskoðun laga og reglna á tilteknum markaði er líkleg til þess að skila um 20% lægra verði á vöru eða þjónustu en ella væri. Umfangsmikið átaksverkefni í Ástralíu sem miðaði að því að draga úr reglubyrgði og auka samkeppni leiddi til verulegrar framleiðniaukningar, í kjölfar þess hafi framleiðni í Ástralíu verið viðvarandi vel yfir meðaltali aðildarríkja OECD. Af umræðum á fundinum er ljóst að slíkt átak myndi auka hagsæld hér á landi verulega.