Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni þess að leiðarljósi. Markmið hennar verður að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri. Sérstakt markmið er að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir. Þannig munu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt.

Þetta stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins frá 22. maí 2013. Þremur árum síðar liggur fyrir að ríkisstjórninni fataðist flugið við að einfalda regluverk og flækti það, ef eitthvað er.

Af þeim 35 frumvörpum fráfarandi ríkisstjórnar sem urðu að lögum og höfðu áhrif á reglubyrði atvinnulífsins var um helmingurinn íþyngjandi og 17% til ívilnunar. Þýðir það að þrjár íþyngjandi breytingar voru innleiddar á móti hverri einföldun.

Af frumvörpunum á 21 þeirra upphaf sitt í innleiðingu EES reglugerða. Nær helmingur þeirra var íþyngjandi fyrir atvinnulífið og í þriðjungi tilfella innleiddu stjórnvöld EES-reglur með meira íþyngjandi hætti en þörf var á til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Ráðuneytin framfylgdu þar að auki ekki því hlutverki sínu í að meta líklegan kostnað atvinnulífsins vegna íþyngjandi ákvæða, en löggjafarskrifstofa forsætisráðuneytisins hefur lagt áherslu á slíkt mat við samningu lagafrumvarpa. Í 93% tilfella var slíkri greiningu ábótavant.

Þetta kemur fram í Skýrslu um þróun reglubyrði atvinnulífsins á 143. til 145. löggjafarþingi sem birt var í október. Skýrslan var unnin af ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, sem skipuð var af forsætisráðherra.

Skiptir kostnaður engu máli?

Marta Guðrún Blöndal, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands (VÍ), segir í samtali við Viðskiptablaðið að regluverk geti haft bæði jákvæð og neikvæð heildaráhrif á vöxt hagkerfisins og skilvirkni í samfélaginu.

„Regluverk getur skapað stöðugleika og gefið markaðnum reglur til að spila eftir. Það getur einnig aukið traust og greitt fyrir viðskiptum Þá geta reglur dregið úr neikvæðum heildaráhrifum eins og mengun. Flókið og íþyngjandi regluverk getur hins vegar hæglega snúist upp í andhverfu sína og haft neikvæð áhrif á lífskjör, t.d. með því að skapa viðskiptakostnað fyrir fyrirtæki og opinbera aðila,“ segir Marta Guðrún. Íþyngjandi regluverk getur þar að auki dregið úr vaxtarmöguleikum fyrirtækja, nýsköpun og samkeppnishæfni, hækkað verð á vöru og þjónustu og gert fyrirtækjum erfiðara að bregðast við þörfum neytenda.

Kostnaður vegna laga- og reglusetningar, eftirlits og leyfisveitingar, og vinnu við að læra og uppfylla reglur er venjulega í formi tíma og fyrirhafnar. Þess vegna er mikilvægt að ávinningur nýrra reglna sé umfram heildarkostnaðinn, og að slíkt mat liggi fyrir áður en reglur fyrir atvinnulífið eru festar í lög.

Það sem stakk einna mest í augu í niðurstöðum úttektarinnar að mati skýrsluhöfunda var því skortur á kostnaðar- og ábatagreiningu á áhrifum nýrra reglna.

„Það er grundvallaratriði fyrir góða stjórnsýslu að slík greining fari fram. Án hennar er ómögulegt fyrir stjórnvöld, atvinnulíf og almenning að átta sig á ábata og íþyngjandi áhrifum sem fylgja setningu reglna fyrir atvinnulífið,“ segir í skýrslunni. „(M)at á kostnaði og ábata af setningu reglnanna þarf að liggja fyrir áður en ákvörðun um setningu þeirra er tekin.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .