Breska sprotafyrirtækið OwnFone hefur tryggt sér tæplega 800 þúsund pund (155 milljónir króna) frá fjárfestum.  OwnFone, sem var stofnað í fyrra, framleiðir að eigin sögn einföldustu farsíma í heimi. Símarnir eru á stærð við kreditkort og aðeins með tökkum. Í símunum er ekkert internet, enginn skjár og þar af leiðandi er auðvitað ekki hægt að senda smáskilaboð.

Síminn er sérstaklega hannaður fyrir börn, eldra fólk og blinda. Allra einföldustu símarnir eru forritaðir þannig að t.d. barn getur bara hringt í foreldra sína. Takkarnir geta annað hvort verið merktir nöfnum foreldranna eða með myndum af þeim. Einnig er hægt að fá símana með blindraletri og venjulegum tölustöfum og þá er hægt að hringja í hvern sem er. Símarnir kosta frá 40 pundum (8.000 krónum).

Þegar fólk kaupir símana fær það nokkuð frjálsræði við hönnuna eins og sjá má á vefsíðu OwnFone .

Á meðal fjárfesta í fyrirtækinu er Angel CoFund, breskur fjárfestingasjóður, sem nýtur stuðnings breska ríkisins. Nigel Litchfield, fyrrum stjórnarmaður í Nokia, hefur einnig fjárfest í OwnFone og mun starfa náið með fyrirtækinu næstu misserin.